Samtök um sárameðferð (SUMS) eru þverfagleg samtök fagfólks sem koma að mati og meðferð sára á Íslandi.  Samtökin voru stofnuð 2004 og hafa verið í stöðugum vexti og þróun síðan.  Meðlimir eru nú vel á þriðja hundrað og eru samtökin því einn stærsti þverfaglegi vettvangur heilbrigðisstarfsfólks á landinu.  Markmið félagsins eru meðal annars að stuðla að aukinni þekkingu á sárgræðslu og sárameðferð, stuðla að samvinnu og samræmingu í meðferð sára í íslensku heilbrigðiskerfi, ásamt því að efla samskipti við sambærileg félög innan lands sem utan.

SUMS skipuleggur í það minnsta tvo fundi eða ráðstefnur árlega, sem eru nú helsti vettvangur fagfólks um sár og sárameðferð á Íslandi.  Samtökin leggja metnað sinn í að stuðla að auknu vísindastarfi og rannsóknum á sviði sárameðferðar á Íslandi.  Verkefnastyrkir SUMS eru auglýstir og veittir árlega viðeigandi verkefnum á sviði sárameðferðar.  SUMS er aðili að og virkur þátttakandi í evrópska fagfélaginu EWMA  (European Wound Management Association).