Lög Samtaka um Sárameðferð
Samþykkt á stofnfundi félagsins 28. október 2004

1. gr. Heiti félags

Félagið heitir: Samtök um sárameðferð skammstafað SUMS (The Icelandic Wound Healing Society – IWHS). Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Samtökin eru þverfagleg.

2. gr. Markmið

Markmið félagsins er:

 • Stuðla að aukinni þekkingu á sárgræðslu og sárameðferð.
 • Stuðla að samvinnu og samræmingu í meðferð sára í íslensku heilbrigðiskerfi.
 • Skipuleggja og halda ráðstefnur og fundi um sárameðferð.
 • Stuðla að auknum rannsóknum á sviði sárameðferðar á Íslandi.
 • Efla samskipti milli félagsins og annara samsvarandi félaga innan lands sem utan.

3. gr. Aðild

Full aðild

Rétt til inngöngu í félagið eiga heilbrigðisstarfsmenn sem hafa áhuga á sárameðferð.

Þeir sem eiga hagsmuna að gæta s.s. eigendur eða starfsfólk fyrirtækja sem framleiða eða selja vörur tengdar sárameðferð, öðlast ekki fulla aðild að félaginu.

Aðeins heilbrigðisstarfsmenn teljast fullgildir félagsmenn og hafa atkvæðisrétt.

Umsókn um aðild skal send stjórn félagsins.

Aukaaðild

Er án atkvæðisréttar eða réttar til stjórnarsetu. Rétt til aukaaðildar á allt áhugafólk um sár og sárameðferð.

Aukafélagsmenn hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum.

Umsókn um aukaaðild skal send stjórn félagsins.

Styrktaraðild

Gefur styrktaraðilum rétt til að fá merki sitt í fréttabréf og tilkynningar sem félagið sendir frá sér, einnig afslátt á sýningarbásum, á ráðstefnum og málþingum.

4. gr. Aðalfundur

Aðalfund skal halda einu sinni á ári. Fundarboð skal sent út með pósti eða tölvupósti með 14 daga fyrirvara.

Tillögur að lagabreytingum skulu sendar með fundarboði.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

 • Kosning fundarstjóra og fundarritara
 • Formaður flytur skýrslu stjórnar um starfsemi félagsins s.l. starfsár
 • Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar
 • Lagabreytingar
 • Kosning stjórnar sbr. 6.1
 • Kosning varamanna sbr. 6.4
 • Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara
 • Árgjöld félagsmanna og styrktaraðila ákveðin
 • Önnur mál

Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

5. gr. Fundir

Félagsfund skal halda ef stjórn telur þörf á eða ef fjórðungur atkvæðisbærra félagsmanna krefst þess. Skal til hans boðað með minnst viku fyrirvara og fundarefni tilgreint.

6. gr. Stjórn

6.1 – Stjórn félagsins skipa 5 menn kosnir til tveggja ára í senn. Annað hvert ár skal kjósa þrjá stjórnarmenn og hitt árið tvo stjórnarmenn.

6.2 – Stjórn félagsins fer með æðsta vald í öllum málefnum félagsins á milli aðalfunda og fylgir lögum þess og samþykktum.

6.3 – Formaður er í forsvari fyrir félagið.

6.4 – Varamenn í stjórn eru tveir. Einn varamaður skal kosinn árlega, til tveggja ára í senn.

6.5 – Á fyrsta stjórnarfundi innan tveggja mánaða eftir aðalfund skiptir stjórn með sér verkum og velur formann, varaformann, ritara og gjaldkera.

6.6 – Stjórnarfund skal boða þegar formaður eða meirihluti stjórnar telur nauðsynlegt Stjórnarfundir eru löglegir ef þrír stjórnarmanna eða fleiri mæta.

7. gr. Fjármál

Félagsgjald er ákveðið á aðalfundi og greiðist í einu lagi.

Gjalddagi er 1. maí ár hvert.

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Skoðaðir reikningar félagsins skulu lagðir fram á aðalfundi. Aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn reikninga

8. gr. Lagabreytingar

Lögum má aðeins breyta á aðalfundi. Tillögur að lagabreytingum skulu auglýstar með fundarboði fjórtán dögum fyrir aðalfund. Tillögur að lagabreytingum þurfa að hafa borist stjórn fyrir 1. febrúar ár hvert. Til að lagabreytingar gangi í gegn þarf samþykki meirihluta fundarmanna.

9. gr. Gildistaka

Lög þessi öðlast gildi þegar þau hafa verið samþykkt á aðalfundi félagsins.

10. gr. Félagið lagt niður

Ákvörðum um að leggja félagið niður er einungis hægt að taka á aðalfundi og skulu tveir þriðju fundarmanna samþykkja hana. Fjármunum félagsins skal varið til góðra málefna sem tengjast markmiðum félagsins