Ráðstefnu SumS 2006 lokið
Annarri ráðstefnu SumS er lokið og sóttu yfir 100 manns ráðstefnuna að þessu sinni. Erindin voru fjölbreytt og fræðandi, þakkar stjórn SumS fyrirlesurum kærlega fyrir þeirra framlag og ráðstefnugestum fyrir þann mikla áhuga sem þeir sýndu.
Einn nýr styrktaraðili bættist í hóp þeirra sem styðja við bakið á sárasamtökunum, en það er Stoð hf. Eru þeir boðnir velkomnir í hópinn.
Eins og á fyrri ráðstefnu var fyrirlestrunum ekki dreift á staðnum heldur ákveðið að setja þá inn á heimasíðuna undir Fræðsluefni.
Minnt skal á að hver fyrirlestur er eign þess aðila sem flutti hann og eru þeir eingöngu ætlaðir til fróðleiks en ekki til notkunar við kennslu nema að fengnu leyfi höfunda.
Stjórn SumS ákvað að bjóða til umsóknar tvo styrki fyrir veturinn 2006-2007, hvor að verðgildi 100.000 kr., til rannsókna/verkefna er tengjast því markmiði félagsins að stuðla að aukinni þekkingu á sáragræðslu og sárameðferð.
Ein umsókn barst og uppfyllti hún skilyrði stjórnar SumS.
Styrkþeginn er Guðný Einarsdóttir, 4. árs nemi við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.
Guðný hefur verið félagi í SumS frá upphafi. Guðný hyggst koma upp heimasíðu þar sem verður efni tengt lokaverkefni hennar sem er fræðileg úttekt á efnum og umbúðum sem notuð eru til hreinsunar sára. Óskum við Guðnýju innilega til hamingju með styrkinn og óskum henni góðs gengis.