Ráðstefnu SUMS 2007 lokið

Þriðju ráðstefnu SUMS er nú lokið. Tæplega 100 manns sóttu ráðstefnuna, fluttir voru mjög áhugaverðir og fræðandi fyrirlestrar, voru gestir mjög ánægðir með fyrirlesarana og fyrirlestrana. Stjórn SUMS þakkar fyrirlesurum þeirra faglega og góða framlag.

Eins og á fyrri ráðstefnum verða fyrirlestrarnir settir inn á heimasíðuna undir Fræðsluefni.

Það skal tekið fram að eingöngu eru birtir þeir fyrirlestrar sem höfundar hafa gefið leyfi fyrir. Sé fyrirlestur ekki inni undir fræðsluefni er það vegna þess að ekki fékkst leyfi til birtingar á netinu. Minnt skal á að fyrirlestrarnir eru eingöngu ætlaðir til fróðleiks en ekki til notkunar sem kennsluefni nema að fengnu leyfi höfunda.

Tveir nýir aðilar bættust í hóp okkar ágætu styrktaraðila og eru það fyrirtækin Celsus ehf. og FASTUS ehf. Bjóðum þau velkomin til samstarfs við samtökin.

Stjórn SUMS bauð til umsóknar tvo styrki fyrir veturinn 2007-2008, hvor að verðgildi 100.000 kr. til rannsókna/verkefna er tengjast því markmiði félagsins að stuðla að aukinni þekkingu á sáragræðslu og sárameðferð.

Ein umsókn barst og uppfyllti hún skilyrði stjórnar SUMS. Styrkþeginn er Guðbjörg Pálsdóttir hjúkrunarfræðingur hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Guðbjörg stundar nú meistaranám við hjúkrunarfræðideild HÍ. Ætlun Guðbjargar er að rannsaka algengi fótasára á Íslandi, greiningu þeirra og meðferð.

Guðbjörg hefur verið félagi í samtökunum frá byrjun og kom að undirbúningi og stofnun þeirra. Hún hefur setið í stjórn samtakanna frá upphafi.

Óskum við Guðbjörgu innilega til hamingju með styrkinn og óskum henni góðs gengis.

Styrkþegi okkar frá því í fyrra Guðný Einarsdóttir kom og kynnti fyrir ráðstefnugestum hvernig hún hafði nýtt styrkinn sem var veittur á síðustu ráðstefnu.

Ætlun hennar var að koma upp heimasíðu þar sem efni tengt lokaverkefni hennar sem er fræðileg úttekt á efnum og umbúðum sem notuð eru til hreinsunar sára yrði komið á framfæri. Opnaði hún heimasíðuna formlega á ráðstefnunni og voru gestir mjög ánægðir með hana.