Netfang SUMS sums@sums-is.org verður lagt niður frá og með 25. nóvember. Stofnað hefur verið pósthólf á gmail og er netfang SUMS sums2004@gmail.com

Þriðju ráðstefnu SUMS er nú lokið. Tæplega 100 manns sóttu ráðstefnuna, fluttir voru mjög áhugaverðir og fræðandi fyrirlestrar, voru gestir mjög ánægðir með fyrirlesarana og fyrirlestrana. Stjórn SUMS þakkar fyrirlesurum þeirra faglega og góða framlag.

Eins og á fyrri ráðstefnum verða fyrirlestrarnir settir inn á heimasíðuna undir Fræðsluefni.

Það skal tekið fram að eingöngu eru birtir þeir fyrirlestrar sem höfundar hafa gefið leyfi fyrir. Sé fyrirlestur ekki inni undir fræðsluefni er það vegna þess að ekki fékkst leyfi til birtingar á netinu. Minnt skal á að fyrirlestrarnir eru eingöngu ætlaðir til fróðleiks en ekki til notkunar sem kennsluefni nema að fengnu leyfi höfunda.

Tveir nýir aðilar bættust í hóp okkar ágætu styrktaraðila og eru það fyrirtækin Celsus ehf. og FASTUS ehf. Bjóðum þau velkomin til samstarfs við samtökin.

Stjórn SUMS bauð til umsóknar tvo styrki fyrir veturinn 2007-2008, hvor að verðgildi 100.000 kr. til rannsókna/verkefna er tengjast því markmiði félagsins að stuðla að aukinni þekkingu á sáragræðslu og sárameðferð.

Ein umsókn barst og uppfyllti hún skilyrði stjórnar SUMS. Styrkþeginn er Guðbjörg Pálsdóttir hjúkrunarfræðingur hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Guðbjörg stundar nú meistaranám við hjúkrunarfræðideild HÍ. Ætlun Guðbjargar er að rannsaka algengi fótasára á Íslandi, greiningu þeirra og meðferð.

Guðbjörg hefur verið félagi í samtökunum frá byrjun og kom að undirbúningi og stofnun þeirra. Hún hefur setið í stjórn samtakanna frá upphafi.

Óskum við Guðbjörgu innilega til hamingju með styrkinn og óskum henni góðs gengis.

Styrkþegi okkar frá því í fyrra Guðný Einarsdóttir kom og kynnti fyrir ráðstefnugestum hvernig hún hafði nýtt styrkinn sem var veittur á síðustu ráðstefnu.

Ætlun hennar var að koma upp heimasíðu þar sem efni tengt lokaverkefni hennar sem er fræðileg úttekt á efnum og umbúðum sem notuð eru til hreinsunar sára yrði komið á framfæri. Opnaði hún heimasíðuna formlega á ráðstefnunni og voru gestir mjög ánægðir með hana.

Skráningarfrestur á ráðstefnuna hefur verið framlengdur til 18. október

Opnað hefur verið fyrir skráningu á ráðstefnu okkar. Tengill á skráningasíðu er efst til vinstri.

Dagskrá ráðstefnu okkar liggur nú fyrir og opnum við fyrir skráningu í vikunni. Þeir félagar sem eiga eftir að greiða árgjaldið fyrir árið 2007 eru vinsamlega beðnir um að ganga frá greiðslu áður en þeir skrá sig því ekki verður hægt að greiða árgjaldið með þátttökugjaldinu.

Vonumst til að sjá ykkur sem flest á spennandi ráðstefnu.

Hér má nálgast dagskrá ráðstefnunnar 2007

Ráðstefnugjald:

  1. 5.000 kr. fyrir félaga í SUMS
  2. 9.000 kr. fyrir aðra en félaga
  3. 3.000 kr. fyrir nema

Skráningu lýkur mánudaginn 15. október.

Stjórn SUMS hefur ákveðið að veita tvo styrki, hvor að verðgildi 100.000 kr. til rannsókna/verkefna er tengjast því markmiði félagsins að stuðla að aukinni þekkingu á sáragræðslu og sárameðferð.

Þeir sem áhuga hafa, geta sótt um styrkinn hér á heimasíðunni.

Umsóknarfrestur er til loka september og verða styrkþegar kynntir á ráðstefnu SUMS sem haldin verður í Salnum Kópavogi 19. október n.k.

Nú er nýlokið sautjándu ráðstefnu EWMA og var hún að þessu sinni haldin í Glasgow Skotlandi.13 íslendingar sóttu ráðstefnuna (þar af 12 hjúkrunarfræðingar)Glasgow skartaði sínu fegursta veðri ráðstefnudagana og höfðu skotar á orði að annað eins veður hefði ekki komið á þessum árstíma í mörg ár, sól og hiti 15 – 18°C.Dagskráin var mjög þétt og úr miklu að velja. Í staðinn fyrir langa upptalningu á efninu, vil ég frekar benda ykkur á að hægt er að nálgast úrdrætti úr fyrirlestrum sem fluttir voru, á heimasíðu EWMA.Á hverri ráðstefnu er gefið út svokallað **”Position Document”** en þar er tekið fyrir ákveðið málefni hverju sinni, þemað þetta árið er **”Topical negative pressure in wound management”**. Position Document er samþætting og sameiginlegt álit marga sérfræðinga innan sárameðferðargeirans.Notið tækifærið, lítið inn á EWMA síðuna og skoðið þessa pappíra en einnig er hægt að nálgast eldri Position Document á http://ewma.org/english/ewma-conferences/conference-abstracts/2007.html ásamt úrdráttum frá fyrri ráðstefnum.Næsta EWMA ráðstefna verður haldin í Lissabon í Portúgal 14. 16. maí 2008 og vil ég hvetja sem flesta að sækja þá ráðstefnu, það er mjög fræðandi og gaman að hlusta á alla þessa góðu fyrirlestra, sjá og heyra í öðrum ráðstefnugestum og skoða hvað sýnendur hafa upp á að bjóða.Hægt er að sjá myndir frá ráðstefnunni undir myndir hér til hliðar.Jóna Kristjánsdóttirformaður SUMS

Stjórn SUMS hefur komið saman eftir aðalfund og skipt með sér verkum:
Jóna Kristjánsdóttir formaður
Herborg Ívarsdóttir varaformaður
Már Kristjánsson gjaldkeri
Guðbjörg Pálsdóttir ritari og
Karl Logason meðstjórnandi

Elín Ólafsdóttir og Hanna Þórarinsdóttir varamenn.

Um 40 manns sóttu aðalfundinn sem haldinn var í Hringsal LSH. 14. mars. Fundarstjóri aðalfundar var Elín H. Laxdal æðaskurðlæknir.

Á aðalfundi voru bornar upp tvær lagabreytingar, önnur breytingin snýr að lögum félagsins en hin að merki SumS. Sjá nánar í auglýsingu um aðalfundinn frá 26. febrúar. Báðar lagabreytingar voru samþykktar af fundarmönnum.

Að loknum aðalfundi var kaffihlé og sýning styrkaraðila skoðuð en þeirra framlag er félaginu ómetanlegt. Þökkum við þeim kærlega fyrir stuðninginn.

Eftir kaffi voru flutt tvö fræðsluerindi og voru áheyrendur mjög ánægðir með þessi tvö ólíku en afar fræðandi erindi. Þökkum við fyrirlesurum fyrir þeirra framlag.

Ráðstefna SUMS verður haldin 19. október 2007 í Salnum Kópavogi. Vinsamlega takið daginn frá. !!